Enski boltinn

Cristiano Ronaldo: Ég hefði aldrei farið til City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Carlos Tevez fagna marki með United.
Cristiano Ronaldo og Carlos Tevez fagna marki með United. Mynd/AFP

Cristiano Ronaldo, fyrrum leikmaður Manchester United, segir það aldrei hafa komið til greina að hann færi yfir til Manchester City eins og fyrrum félagi hans í sóknarlínu United, Carlos Tevez.

Það voru sögusagnir í fyrra um að City væri að hugsa um að bjóða 135 milljónir punda í Portúgalann en þrátt fyrir tilboð um ofurlaun þá er bara eitt lið sem hann væri til í að spila með í Manchester-borg.

„Ég hefði aldrei farið til City. Manchester City er með fullt af góðum leikmönnum og verður örugglega til vandræða fyrir United, Arsenal og Chelsea en það vekur engan áhuga hjá mér. Ég hef aðeins áhuga á að spila fyrir lið eins og Real Madrid, Barcelona og Valencia," sagði Ronaldo.

Ronaldo hefur enn sterkar taugar til Manchester United og vonast til þess að Michael Owen gangi vel að komast inn í hlutina á Old Trafford. Ronaldo vill heldur alls ekki sjá Manchester City vinna enska meistaratitilinn.

Ronaldo segir enga aukapressu vera á owen þó að hann hafi erft sjöuna hans hjá United. „Það verður ekkert meiri pressa á honum. United gerði góða hluti með því að fá hann. Owen er góður enskur leikmaður sem hefur allt að vinna. United er frábært félag og það var góð ákvörðun með að láta hann frá sjöuna," sagði Ronaldo sem er nú staddur í æfingabúðum Real Madrid á Írlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×