Körfubolti

Fannar: Finnst rosalega gaman að spila þessa leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, var flottur í leiknum í dag.
Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, var flottur í leiknum í dag. Mynd/Vilhelm

Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, átti stórleik á báðum endum vallarsins þegar KR vann fyrsta leikinn á móti Grindavík í lokaúrslitum Iceland Express deildar karla í körfubolta í DHL-Höllinni í kvöld.

„Mér finnst rosalega gaman að spila þessa leiki. Það á hið sama við um allt liðið því við erum með reynslumikið lið og það sýndi sig hér í kvöld að við stýrðum leiknum alveg fram á 35. mínútu," sagði Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, eftir leik. En hvað gerðist þá?

„Við fórum að bakka og hleyptum þeim inn í leikinn. Við fórum að reyna að láta 24 sekúndna klukkuna renna niður í staðinn að taka okkar skot og spila okkar leik. Það var klaufalegt en það er ekkert sem háir okkur. Við kláruðum þetta og unnum leikinn," sagði Fannar sem hefur engar áhyggjur af því þótt að Grindavík hafi náð að minnka muninn í lokin.

Fannar var ákveðinn í að nýta sér það að Grindavík lagði áherslu á að stoppa bakvarðarsveitina í KR-liðinu. „Bakkararnir okkar eru svo ógnandi að við fáum meira pláss en ella. Þegar við erum með þríeyki eins og Jón, Jakob og Jason þá eru þeir ekki að hjálpa mikið inn í teig," segir Fannar en hann og Helgi Már voru saman með 44 stig í leiknum.

„Við nýtum okkur það bara óspart ég og Helgi að þegar ekki er verið að hjálpa þá höfum við trú á því að það geti enginn stoppað okkur," segir Fannar en bætir við. „Svo kannski dettur maður niður á heppnisdag eins og í dag en lykilatriðið er að koma tilbúinn," sagði Fannar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×