Fótbolti

Cristiano Ronaldo ætlar sér að spila á móti Sevilla á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo gæti misst af mikilvægum leik um helgina.
Cristiano Ronaldo gæti misst af mikilvægum leik um helgina. Mynd/AFP

Cristiano Ronaldo meiddist á ökkla á móti Marseille í Meistaradeildinni á miðvikudaginn eftir að hafa skorað tvö mörk og fiskað víti í 3-0 sigri. Portúgalinn hefur trú á því að hann verði orðinn góður fyrir stórleikinn á móti Sevilla á sunnudaginn.

„Ég fæ nokkra daga til að ná mér góðum og vonandi verð ég klár á sunnudaginn. Ég held að ég nái þessum leik," sagði Ronaldo en leikurinn verður fyrsta alvöru prófið fyrir Real Madrid liðið sem hefur unnið fimm fyrstu deildarleiki sína á tímabilinu.

Manuel Pellegrini, þjálfari Real Madrid, vill ekki taka neina áhættu með sína leikmenn og hefur gefið það út að Cristiano Ronaldo verði að vera búinn að ná sér hundrað prósent eigi hann að vera með í leiknum.

Það eru fleiri mikilvægir leikir framundan hjá Cristiano Ronaldo því portúgalska landsliðið er í mikill baráttu um að komast á HM í Suður-Afríku en liðið er ekki í allt of góðri stöðu í sínum undanriðli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×