Körfubolti

Fannar, Nick og Arnar Freyr hafa aldrei tapað í lokaúrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fannar Ólafsson hefur orðið Íslandsmeistari í öll 3 skiptin sem hann hefur verið í lokaúrslitum.
Fannar Ólafsson hefur orðið Íslandsmeistari í öll 3 skiptin sem hann hefur verið í lokaúrslitum. Mynd/Stefán

Þrír leikmenn KR og Grindavík í lokaúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla hafa aldrei tapað í lokaúrslitum. Þetta eru þeir Fannar Ólafsson hjá KR og Grindvíkingarnir Arnar Freyr Jónsson og Nick Bradford. Úrslitaeinvígi KR og Grindavíkur hefst í DHL-Höllinni klukkan 16.00 í dag.

Arnar Freyr Jónsson varð Íslandsmeistari með Keflavík í öll fjögur skiptin sem hann komst í lokaúrslit með liðinu eða árin 2003, 2004, 2005 og 2008. Arnar Freyr hefur verið í sigurliði í 11 af 13 leikjum sínum í úrslitaeinvíginu. Arnar Freyr er líka eini leikmaðurinn í úrslitaeinvíginu sem getur orðið Íslandsmeistari annað árið í röð.

Fannar Ólafsson hefur orðið Íslandsmeistari með bæði KR og Keflavík og unnið titilinn í öll þrjú skiptin sem hann hefur spilað til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Fannar lyfti Íslandsbikarnum þegar KR vann titilinn fyrir tveimur árum og hann vann hann einnig með Keflavík 1999 og 2004.

Nick Bradford var Íslandsmeistari með Keflavík bæði tímabilin sem hann spilaði þar. Keflavík vann 6 af 8 leikjum í lokaúrslitum með Bradford innanborðs árin 2004 og 2005.

Hér eru einungis teknir með þeir leikmenn sem hafa spilað í tveimur lokaúrslitum eða fleiri en nokkrir leikmenn til viðbótar unnu titilinn í fyrsta og eina skiptið sem þeir voru í lokaúrslitum.

KR-ingarnir Jón Arnór Stefánsson (2000), Jakob Örn Sigurðarson (2000), Brynjar Þór Björnsson (2007), Darri Hilmarsson (2007), Skarphéðinn Freyr Ingason (2007), Ólafur Már Ægisson (2000), Guðmundur Þór Magnússon (2000) og Ellert Arnarson (2007) urðu síðan allir Íslandsmeistarar í fyrsta og eina skiptið sem þeir voru með í lokaúrslitum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×