Körfubolti

Sigurður í viðræðum við KR

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður Ingimundarson.
Sigurður Ingimundarson. Mynd/Stefán

Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari og þjálfari Keflavíkur, er í viðræðum við KR um að taka við karlaliði félagsins. Bæði Sigurður og formaður körfuknattleiksdeildar KR, Böðvar Guðjónsson, staðfestu að viðræður hefðu átt sér stað.

„Við höfum aðeins rætt saman en það hafa engar formlegar viðræður átt sér stað," sagði Sigurður við Vísi áðan en hann vildi annars lítið gefa upp um stöðu mála.

„Ég er enn með samning við Keflavík og það hefur ekkert breyst hvað það varðar. Ég er enn þjálfari Keflavíkur," sagði Sigurður en aðspurður gat hann ekki neitað því að hann gæti fengið sig lausan ef hann vildi.

Uppsagnarákvæði eru oftar en ekki í samningum og svo eru forsendur flestra samninga í flestum íþróttum á Íslandi í dag brostnar.

Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, fór ekki í grafgötur með að KR hefði áhuga á Sigurði.

„Sigurður er ákaflega hæfur þjálfari og myndi sóma sér vel í Vesturbænum. Hann er eini Íslendingurinn sem kemur til greina í starfið. Það eru ekki allir sem geta þolað pressuna í Vesturbænum en Sigurður myndi þola hana," sagði Böðvar.

Hvað erlenda þjálfara varðar sagði Böðvar KR-inga ávallt horfa hýru auga til Ungverjans Laszlo Nemeth sem þjálfaði íslenska landsliðið sem og KR árin 1988-90 og svo aftur árin 1993-94.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×