Körfubolti

Bradford: Líklega minn besti leikur á Íslandi

Nick Bradford átti einhvern besta leik sem sést hefur í lokaúrslitunum í kvöld
Nick Bradford átti einhvern besta leik sem sést hefur í lokaúrslitunum í kvöld

Nick Bradford átti eftirminnilegan stórleik í kvöld þegar Grindavík tók KR í kennslustund á útivelli 107-94 í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Iceland Express deildarinnar.

Bradford skoraði 47 stig, hirti 8 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og stal 4 boltum í leiknum og átti stóran þátt í óvæntum sigri gestanna.

Lokatölur leiksins gefa í raun ekki rétta mynd af gangi leiksins, því Grindavíkurliðið náði mest 27 stiga forystu í leiknum og var sigurinn aldrei í hættu þó KR næði að laga stöðuna í lokin.

Bradford hefur aldrei tapað einvígi í úrslitakeppni hér á landi, en hann lék áður með meistaraliði Keflavíkur.

"Jú, líklega var þetta minn besti leikur á Íslandi til þessa. Ég hef átt fína alhliðaleiki en hvað stigaskorun varðar var þessi leikur líklega sá besti. Ég fann mig mjög vel í þessum leik og það var líka gaman að eiga svona leik á útivelli," sagði Bradford í samtali við Vísi.

"Það var varnarleikurinn okkar sem lagði grunninn að þessum sigri í dag. Við getum alveg spilað vörn og sýndum það í þessum leik. Næsti leikur er úrslitaleikur fyrir okkur alveg eins og þá, því við viljum ekki þurfa að koma hingað aftur," sagði Bradford.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×