Íslenski boltinn

Þjálfari HK réðst á dómara

Andri Ólafsson skrifar
Björgvin Sigurbjörnsson.
Björgvin Sigurbjörnsson.
Aganefnd KSÍ mun í vikunni fjalla um atvik sem upp kom í leik Breiðabliks og HK í 3. flokki kvenna um helgina.

Samkvæmt heimildum fréttastofu missti þjálfari HK, Björgvin Sigurbjörnsson, algjörlega stjórn á skapi sínu og veittist með ofbeldi að dómara leiksins Hauki Valdimarssyni.

Fjölmörg vitni voru að atvikinu.

Atvikið mun hafa átt sér stað í fyrri hálfleik eftir að dómara leiksins dæmdi vitlaust innkast á HK. Björgvin þjálfari missti þá gjörsamlega stjórn á skapi sínu, hljóp inn á völlinn, hellti sér yfir dómarann og sparkaði bolta í hann. Dómarinn svaraði með því að sýna Björgvini rauða spjaldið og vísaði honum af vellinnum.

Björgvin lét sér hins vegar ekki segjast.

Hann veittist þess í stað að dómaranum og gaf honum högg í síðuna. Því næst strunsaði hann af vellinum en lét þá orð falla sem vitni hafa túlkað sem hótanir í garð dómarans.

KSÍ veit af atvikinu og hefur óskað eftir upplýsingum um málið frá HK og Breiðablik. Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri sambandsins sagði málið grafalvarlegt ef rétt reynist. Hann ítrekaði þó að það væri aganefndarinnar að fjalla um málið og úrskurða í því.

Fréttastofa ræddi við Björgvin Sigurbjörnsson þjálfara í dag. Hann viðurkenndi að hafa gengið of langt og sagðist hafa beðið dómara leiksins afsökunar á framferði sínu. Hann ætlar hins vegar ekki að láta að störfum sem þjálfari hjá HK. Þá hefur knattspyrnudeild HK ekki tekið neinar ákvarðanir um framtíð Björgvins í kjölfar málsins.

Haukur Valdimarsson knattspyrnudómari villdi lítið tjá sig um málið við fréttastofu í dag. Hann sagði málið nú á borði HK og KSÍ og að væri þeirra að leysa úr þeirra stöðu sem upp væri kominn. Hann staðfesti að öðru leyti þá frásögn af atburðinum sem fram kemur hér að ofan.

Umræddur leikur HK og Breiðabliks endaði 1-0 fyrir HK






Fleiri fréttir

Sjá meira


×