Fótbolti

Búið að reka Benitez frá Inter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez.
Rafael Benitez. Nordic Photos / AFP

Internazionale hefur nú staðfest að Rafael Benitez er ekki lengur starfandi knattspyrnustjóri félagsins.

Benitez entist aðeins sex mánuði í starfi hjá Inter en hann tók við af Jose Mourinho í sumar eftir að sá síðarnefndi gerði félagið að þreföldum meisturum í vor.

Inter hefur átt erfitt uppdráttar í ítölsku úrvalsdeildinni í haust og er í sjöunda sæti deildarinnar með 23 stig, þrettán á eftir AC Milan en á þó tvo leiki til góða. Inter varð í öðru sæti í A-riðli Meistaradeildarinnar, á eftir Tottenham, og tapaði til að mynda 3-0 fyrir Werder Bremen í lokaumferð riðlakeppninnar.

Um helgina varð svo félagið heimsmeistari félagsliða. Það var á blaðamannafundi eftir þá keppni að Benitez krafðist þess að forráðamenn Inter myndu annað hvort styðja almennilega við bak hans eða reka hann.

Massimo Moratti, stjóri Inter, valdi síðari kostinn. Félagið staðfesti svo á heimasíðu sinni í dag að málsaðilar hafi komist að samkomulagi að Benitez hætti sem knattspyrnustjóri.

Benitez hætti hjá Liverpool síðastliðið vor og afrekaði það því að vera í raun rekinn frá tveimur stórliðum í evrópskri knattspyrnu á einu og sama árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×