Skoðun

Ráðuneyti ekki lögð niður

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Í síðustu viku voru afgreidd frá Alþingi lög um Stjórnarráð Íslands. Þar er lögð til sameining fjögurra ráðuneyta í tvö. Er hér átt við sameiningu dómsmála- og samgönguráðuneytis í innanríkisráðuneyti og heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis í velferðarráðuneyti.

Því ber að fagna að Alþingi féllst ekki á að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Voru ákvæði þess efnis tekin út úr upphaflegu frumvarpi forsætisráðherra. Sérstök ástæða er til að gleðjast yfir þessari niðurstöðu enda í samræmi við umsagnir flestra þeirra atvinnugreina sem hér um ræðir og í samræmi við niðurstöðu flokksráðs Vinstri-grænna.

Því hefur verið haldið fram að það sé grundvallaratriði að rannsóknum á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu sé haldið aðskildu frá nýtingarsjónarmiðum. Á þetta sjónarmið er hægt að fallast en hér verður að stíga varlega til jarðar og ekki stuðla að nýju kerfi til hliðar við og úr tengslum við það sem við nú höfum. Í dag er sjálfstæði Hafrannsóknastofnunarinnar virt hvort sem menn eru sammála eða óssammála niðurstöðum hennar. Ég hef í það minnsta hvergi heyrt kvartað yfir afskiptum ráðherra af stofnuninni. Þótt ekkert sé fullkomið og þá ekki ástand fiskistofna við Íslandsstendur þá er það samt til muna betra en hjá næstu nágrönnum okkar í ESB.

Stundum hefur það borið við að málefni eru keyrð áfram á frösum sem eru þegar betur er að gáð án nokkurs innihalds. Sem betur fer sá Alþingi í gegnum orðagljáfrið og samþykkti ekki stofnun atvinnuvegaráðuneytis enda engin frambærileg rök lögð fram málinu til stuðnings.




Skoðun

Sjá meira


×