Skoðun

Reynir Sigurðsson: Kosningabarátta í boði Reykjanesbæjar

Nú er mælirinn fullur. Nýútkominn glansbæklingur Sjálfstæðisflokksins er kostaður af útsvarsgreiðendum í Reyknesbæ. Svo gott sem allar myndirnar sem í honum eru hafa áður birst í kynningar og upplýsingaefni Reykjanesbæjar. Ekki þarf annað en renna yfir bæklinginn. Þetta sér hver hugsandi maður.

Á erfiðum tímum þegar kennurum er gert að fara sparlega með pappír og strangar reglur gilda um ljósritun efnis fyrir börnin okkar fáum við um lúguna glansbækling frá eignarhaldsfélaginu Fasteign með mynd af bæjarstjóranum. Þetta er meðal þess sem Reykjanesbær stendur undir í formi leigu á skólum og öðrum innviðum samfélagsins sem sólundað var í einkavæðingunni.

Við fáum kort af nýja göngustígnum, með mynd af bæjarstjóranum. Okkur er boðið í rútuferðir um bæjarfélagið þar sem bæjarstjórinn er leiðsögumaður og hvert sem maður lítur sér maður myndir af bæjarstjóranum til að auglýsa „íbúafundi“. Hvað er þetta annað en kosningaráróður borgaður af bæjarfélaginu.

Er virkilega þannig komið fyrir sjálfstæðisflokknum í Reykjanesbæ að hann skyrrist ekki við að nota almannafé sér til framdráttar í kosningabaráttu? Er siðferðið algjörlega komið á núllpunkt? Svarið er því miður JÁ. Það er nöturlegt í ljósi alls sem á undan er gengið í þjóðfélaginu að sjálfstæðismenn hér í Reykjanesbæ séu enn með höfuðið í sandinum. Neita að opna augun fyrir því að hér átti sér stað  hrun sem ekki á sér hliðstæðu á byggðu bóli, jafnvel á heimsvísu. Þrátt fyrir það  svífast menn einskis og fara í vasa allra bæjarbúa til að kosta kosningabaráttu sína.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ neitar að taka þátt í að læra af hruninu, læra af skýrslunni. Bankarnir voru rændir innanfrá og það sama hefur gerst í sveitarfélaginu okkar og er enn að gerast. Fyrst voru það skólarnir og íþróttahúsin, svo var það Hitaveitan. Og hverjir fengu stór kúlulán hjá Sparisjóði Keflavíkur áður en hann fór á hausinn? Dómgreindarleysi, siðleysi og vanmáttur Sjálfstæðisflokksins er augljóst. Þurfum við frekari vitna við?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×