Körfubolti

Sverrir Þór: Hún er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Njarðvíkur.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Njarðvíkur.

Fjögurra leikja sigurganga Njarðvíkur í Iceland Express deild kvenna endaði með fjórtán stiga tapi á móti Hamar í Hveragerði í kvöld. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Njarðvíkur, sagði að sýnar stelpur hafi gert það besta út hlutunum eftir að hafa misst stigahæsta leikmann sinn, Dita Liepkalne, meiddan af velli eftir aðeins 54 sekúndur.

„Þetta fór ekki eins og við ætluðum okkur því við komum hingað til að vinna. Við verðum fyrir þessu áfalli og gerðum okkar besta úr því," sagði Sverrir Þór.

„Mér leyst ekkert á það þegar við misstum hana í upphafi leiks og líka vegna þess að við erum með ekkert mjög hávaxið lið. Hún er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur. Ég var mjög ánægður með stelpurnar og þær sem sem fengu hellings mínútur út af þessu. Ég var ánægður með baráttuna og að liðið lagði sig fram. Við vissum að þetta yrði erfitt," sagði Sverrir Þór.

„Hamar er fyrirfram eitt af tveimur sterkustu liðunum í deildinni. Þær eru með hörkulið og þetta er erfiður útivöllur. Ég er ósáttur með að tapa hérna en heilt yfir þá er ég ánægður með karakterinn í liðinu mínu og mér fannst stelpurnar leggja sig vel fram. Þær gáfust aldrei upp þótt að við værum að lenda eitthvað undir og við vorum því þannig séð alltaf inn í leiknum," sagði Sverrir.

Dita Liepkalne lét reyna á fótinn á hliðarlínunni en það kom fljótlega í ljós að hún gat ekki komið aftur inn í leikinn.

„Hún ætlaði sér það fyrst að koma aftur inn í leikinn en svo gat hún ekkert hlaupið. Hún sagði ætla að koma inn þegar þetta gerðist en þegar hún reyndi að hlaupa þá var þetta vonlaust," segir Sverrir.

Hann er ánægður með sínar stelpur og er bjartsýnn á veturinn. „ Það er ýmislegt hægt ennþá hjá okkur því þetta er rétt að byrja,"sagði Sverrir að lokum.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×