Fótbolti

Ibrahimovic ískaldur fyrir framan markið í síðustu leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic er ekki að finna markið þessa dagana.
Zlatan Ibrahimovic er ekki að finna markið þessa dagana. Mynd/AFP
Zlatan Ibrahimovic hefur ekki alveg náð að fylgja eftir frábærri byrjun með spænska liðinu Barcelona en Svíinn hefur ekki skorað nema einu sinni í síðustu níu leikjum Barcelona í öllum keppnum.

Zlatan Ibrahimovic hefur skorað 11 deildarmörk á tímabilinu en síðasta deildarmark hans kom úr vítaspyrnu á móti Espanyol 12. desember síðastliðinn.

„Hann er þegar búinn að skora fullt af mörkum í deildinni svo við höfum ekkert áhyggjur af því þó að hann sé ekki búinn að skora í nokkrum leikjum í röð," sagði Seydou Keita, liðsfélagi Zlatans hjá Barcelona.

„Ef hann skorar ekki þá eru bara aðrir í liðinu sem sjá um að skora. Við erum sameinaðir sem eitt lið og svo það er engin ástæða til hafa áhyggjur af þessu," sagði Seydou Keita en Barcelona hefur náð í 13 af 15 mögulegum stigum í síðustu fimm deildarleikjunum sem Zlatan hefur ekki komist á blað.

Það munar þar miklu að Lionel Messi hefur skorað sex mörk í þessum fimm leikjum og Pedro hefur bætt við þremur mökrum til viðbótar en alls hefur Barcelona skorað 14 mörk í þessum fimm síðustu deildarleikjum þar sem Zlatan hefur ekki fundið netmöskvanna.

Ibrahimovic hefur sjálfur talað um að hann þurfi að skila meiri til liðsins en þjálfarinn Pep Guardiola og félagar hans í liðinu hafa hrósað honum fyrir framlag hans til liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×