Fótbolti

Berlusconi vill að Ronaldinho verði áfram hjá AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho leikur sér med boltann.
Ronaldinho leikur sér med boltann. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ronaldinho verður áfram í herbúðum AC Milan um sinn þrátt fyrir að hafa á dögunum samþykkt samningstilboð frá Gremio, æskufélagi sínu í Brasilíu. Ronaldinho hefur verið orðaður við hvert félagið í fætur öðru eftir að AC Milan samdi við Antonio Cassano en hann hefur fengið fá tækifæri með AC Milan í vetur.

Umberto Gandini, yfirmaður knattspyrnumála hjá AC Milan, segir að félagið ætli ekki að láta leikmanninn fara eins og staðan er í dag en Ronaldinho er samningsbundinn AC Milan til vorsins.

Ronaldinho er mættur í æfingaferð AC Milan til Dúbæ en það er Silvio Berlusconi, forsætisráðherra ítala og eigandi AC Milan, sem vill að Ronaldinho spili áfram með AC Milan liðinu.

Ronaldinho hefur aðeins fengið að spila í 609 mínútur með AC Milan (af 1530 mögulegum) í ítölsku deildinni á þessu tímabili. Hann hefur ekki skorað en er búinn að gefa 3 stoðsendingar í þessum 11 leikjum. Ronaldinho var með 12 mörk og 18 stoðsendingar í 36 leikjum á síðustu leiktíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×