Skoðun

Ögmundur og Úkraína

Töluverðar umræður hafa spunnist um grein Ögmundar Jónassonar alþingismanns um Evrópusambandið fyrir skömmu. Þar notaði þingmaðurinn mjög sérkennilegar líkingar úr mannkynssögunni til að leggja áherslu á mál sitt. Ögmundur hefur síðan reynt að klóra yfir þennan málflutning sinn, þegar betur hefði farið á því að hann bæðist afsökunar á þessum ósmekklega samanburði.

Ögmundur notaði orðið lífsrými (lebensraum) sem er tengt útþenslustefnu nasista í Þýskalandi órjúfanlegum böndum. Það er sama hvað hann reynir að útskýra að þetta hafi verið notað í óeiginlegri merkingu og gert í framhjáhlaupi. Það breytir ekki tengingunni í þetta dökka tímabil í sögu álfunnar. Baldur Þórhallsson, Grímur Atlason og Guðmundur Andri Thorsson hafa svarað þessu skilmerkilega og ætla ég því ekki að höggva í sömu knérunna.

En fyrst þingmaðurinn var að tengja sögu Evrópu við stækkun ESB langar mig að benda honum á þróun mála í Póllandi og Úkraínu. Þegar Pólland gekk í Evrópusambandið af fúsum og frjálsum vilja árið 2004 stækkaði „landssvæði" (ef við notum hugtök Ögmundar) Evrópusambandsins um 6 prósent og íbúafjöldi um 10 prósent. Var þetta af hinu góða eða illa fyrir Pólland? Hefur Evrópusambandið sölsað undir sig auðlindir Pólverja, til dæmis skógana eða kolanámurnar? Svarið er nei, enda hefur Evrópusambandið engan rétt til þess. Það sem ég hef aldrei skilið eru þau rök nei-sinna að Evrópusambandið ætli sér svo að sölsa undir sig auðlindir Íslands, þegar ljóst er að það hefur aldrei gert það í öðrum aðildarlöndum.

Úkraínumenn, sem einnig liðu miklar hörmungar undir ógnarstjórn nasista, hafa reynt að tengjast Evrópusambandinu sterkari böndum.

Þegar ESB stækkaði árið 2004 náði „landssvæði" Evrópusambandsins að Úkraínu. Þessi A-Evrópustækkun var ein helsta ástæða þess að Rússar hættu við að senda herlið inn í landið þegar „appelsínugula" byltingin átti sér stað í lok árs 2004. Úkraínumenn hafa því fagnað auknu „landssvæði" Evrópusambandsins því það hefur leitt til frelsis og lýðræðisumbóta í allri álfunni en ekki nýlendukúgunar og hörmunga eins og Ögmundur gefur sterklega í skyn í grein sinni að muni gerast ef Ísland gerist aðili að ESB.






Skoðun

Sjá meira


×