Fótbolti

Hélt að ekkert yrði úr Messi

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ronald de Boer í golfi.
Ronald de Boer í golfi.

Ronald de Boer, fyrrum leikmaður Barcelona, hefur viðurkennt að hafa ekki haft trú á því að það yrði eitthvað úr Lionel Messi fyrir fimm árum síðan.

Messi var þá að keppa með yngri landsliðum Argentínu á meðan Ronald og Frank Rijkaard, þáverandi þjálfari Messi hjá Barcelona, voru saman í fríi.

„Mér fannst of mikil pressa á þessum sautján ára strák og hélt að hann myndi ekki höndla athyglina. Ég hélt að hann myndi missa einbeitinguna með því að vera látinn spila tíu mismunandi stöður," segir Ronald.

„Frank var sífellt að tala vel um Messi en mér fannst hann ekki eiga neitt sérstaklega gott mót. Ég sagði að mér þætti hann vera að reyna of mikið og skorti einbeitingu."

Rijkaard var ekki sammála Ronald sem þarf nú að éta þessi orð ofan í sig. „Mér skjátlaðist heldur betur. Messi hefur þegar afrekað meira en Maradona hafði gert á sama stigi ferils síns," segir Ronald de Boer.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×