Fótbolti

Treyja númer 4 bíður eftir Fabregas

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það vakti litla kátínu hjá stuðningsmönnum Arsenal er Fabregas var klæddur i Barcelona-treyju síðasta sumar.
Það vakti litla kátínu hjá stuðningsmönnum Arsenal er Fabregas var klæddur i Barcelona-treyju síðasta sumar.

Þó svo Barcelona hafi ekki tekist að kaupa Cesc Fabregas síðasta sumar er félagið langt frá því búið að gleyma honum eða gefast upp á honum.Því til sönnunar fær enginn leikmaður félagsins að nota treyju númer 4 hjá félaginu sem er eyrnamerkt Fabregas.

Það vill svo skemmtilega til að Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, lék einmitt í þeirri treyju með Barca á sínum tíma en hann var átrúnaðargoð Fabregas.

"Guardiola hefur alltaf verið hetjan mín. Ég spilaði í hans stöðu og það var merkileg stund er þjálfarinn minn gaf mér treyju sem Pep hafði áritað," sagði Fabregas.

Miðjumaðurinn er alinn upp í Barcelona en fór 16 ára til Arsenal. Þó svo hann vilji fara heim segist hann skulda Arsene Wenger og Arsenal. Þess vegna er það erfitt fyrir hann að fara.

Barcelona mun klárlega gera aðra tilraun til þess að kaupa hann næsta sumar þó svo hann sé samningsbundinn Arsenal til 2015.

Barca mun geyma treyju númer 4 fyrir Fabregas en síðastur til að spila í þeirri treyju var Mexíkóinn Rafael Marquez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×