Fótbolti

Barcelona ætlar að kæra Laporta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Laporta var duglegur að eyða peningum.
Laporta var duglegur að eyða peningum.

Joan Laporta, fyrrum forseti Barcelona, gæti átt erfiða daga fyrir höndum þar sem félagið hefur ákveðið að kæra hann.

Í sjö ára stjórnunartíð Laporta jukust skuldir félagsins gríðarlega. Á árunum 2003-08 var 48,7 milljón evra tap á rekstri félagsins. Leiktíðina 2009-10 var tapið 78 milljónir evra.

Stjórnarmenn Barcelona vilja að Laporta fái að gjalda fyrir að koma félaginu í svona vonda stöðu en það skuldar nú 430 milljónir evra.

Laporta segist ekki ætla að sitja þegjandi undir þessum ásökunum.

"Ég mun véfengja þessa ákvörðun stjórnarinnar því ég fékk ekki tækifæri til þess að útskýra mitt mál fyrir stjórninni áður en hún greiddi atkvæði um að kæra mig," sagði Laporta reiður.

"Þetta er ósiðleg framkoma af hálfu stjórnarinnar og ég mun ekki sætta mig við þessa framkomu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×