Fótbolti

Guardiola segir að Valencia geti alveg unnið spænsku deildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josep Guardiola, þjálfari Barcelona.
Josep Guardiola, þjálfari Barcelona. Mynd/AP
Josep Guardiola, þjálfari Barcelona, sér ekki bara fram á einvígi við Real Madrid um spænska meistaratitilinn því hann sér Valencia-liðið líka blanda sér í toppbaráttuna á þessu tímabili. Barcelona mætir Valencia á morgun en Valencia er eins og er í efsta sæti spænsku deildarinnar.

„Valencia er eitt af liðunum sem getur orðið spænskur meistari og ég er viss um að þetta verður góður leikur á laugardaginn," sagði Josep Guardiola á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Valencia hefur haft sama þjálfara undanfarin tvö ár og það kemur mér ekki á óvart að þeir séu á toppnum. Þeir gera allt sem þeir gera vel. Þeir mæta bæði undirbúnir til að verjast og til að sækja," sagði Josep Guardiola.

Valencia er taplaust með fimm sigra í sex leikjum en í næstu sætum koma Villareal, Real Madrid og Barcelona. Annaðhvort Real Madrid eða Barcelona hafa unnið deildina undanfarin sex tímabil.

Valencia hefur byrjað mótið frábærlega þrátt fyrir að horfa á eftir tveimur stærstu stjörnunum fyrir tímabilið - David Villa fór til Barcelona og David Silva fór til Manchester City.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×