Fótbolti

Hólmfríður var að hugsa um að hætta í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með KR á móti Val.
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með KR á móti Val. Mynd/Auðunn
Hólmfríður Magnúsdóttir er að hefja sitt fyrsta tímabil í bandarísku atvinnumannadeildinni í fótbolta með Philadelphia Independence. Fyrir rúmum tveimur árum var hún þó að íhuga að hætta í fótbolta en þetta kemur fram í viðtali við hana Í afmælisriti KR sem kom út í gær og er fjallað um á heimasíðu KR.

„Þetta var erfiður tími og ég tók þessa gagnrýni mjög nærri mér en ákvað að vera eitt ár á Íslandi í viðbót til að sýna að ég stæði undir nafnbótinni og eyða efasemdarröddum. Ég var niðurlægð og á tímabili langaði mig ekki til að halda áfram í fótbolta en mótlætið styrkti mig. Ég hafði um tvennt að velja, að hætta eða sýna hvað í mér bjó," segir Hólmfríður í viðtalinu í afmælisriti KR en KR varð 111 ára í gær.

Hólmfríður Magnúsdóttir var valin besti leikmaður Landsbankadeildar kvenna sumarið 2007 en upp kom gagnrýni um að velja hefði átt Margréti Láru Viðarsdóttur sem var síðan kosin Íþróttamaður ársins fyrir árið 2007.

Hólmfríður stóð sig eins og hetja í fjölmiðlafárinu í kjölfar þessa máls, kom síðan enn sterkari til baka og stimplaði sig inn sem lykilmann í íslenska landsliðinu. Hún verður nú á þessu ári fyrsta íslenska konan til þess að spila í nýju atvinnumannadeildinni í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×