Fótbolti

Afellay: Æskudraumur rætist með samningnum við Barcelona

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sandro Rosell, forseti Barcelona, tekur í hönd Ibrahim Afellay.
Sandro Rosell, forseti Barcelona, tekur í hönd Ibrahim Afellay.

Nú um jólin tilkynnti spænska risaliðið Barcelona um samning við miðjumanninn Ibrahim Afellay. Hann kemur frá PSV Eindhoven í Hollandi og er kaupverðið um þrjár milljónir evra.

„Ég mun bera liti Barcelona með stolti og virðingu. Barca er meira en félag," sagði Afellay eftir að hafa undirritað fjögurra og hálfs árs samning við spænsku meistarana.

„Þegar ég var krakki vildi ég spila fyrir Barca, það var draumur minn. Við vitum öll að þetta er besti staðurinn fyrir fótboltamann og þegar ég heyrði af áhuga þeirra þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Ég vildi ganga frá samningum eins fljótt og hægt var."

Afellay er 24 ára og er ættaður frá Marokkó. Hann fæddist í Utrecht í Hollandi og hefur allan sinn feril leikið með PSV. Hann á 31 landsleik og tvö mörk að baki fyrir Holland.

Þessi sókndjarfi miðjumaður getur einnig leyst stöðu kantmanns. Árið 2007 var hann valinn efnilegasti leikmaður hollensku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×