Körfubolti

Umfjöllun: Mikilvægur sigur Keflvíkinga gegn KR

Stefán Árni Pálsson skrifar
Keflvíkingar unnu frábæran sigur, 95-91, á KR-ingum í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ í kvöld. Keflvíkingar voru með yfirhöndina allan leikinn en KR-ingar fengu nokkur tækifæri undir lokin til að stela sigrinum en það tókst ekki og því fór sem fór.

Keflvíkingar höfðu aðeins unnið einn leik það sem af er tímabilsins og hafa valdið töluverðum vonbrigðum. KR-ingar eru aftur á móti með þrjá sigurleiki á bakinu og hafa sýnt fína takta í byrjun móts.

Lazar Trifunovic, nýr leikmaður Keflvíkinga, var komin með leikheimild og tilbúin í slaginn og Valentino Maxwell var búin að jafna sig af meiðslum og einnig í liðinu. Það var því um gríðarlega mikilvægan leik að ræða fyrir Keflvíkinga og ekkert annað kom til greina en sigur. KR-ingar eru ekki þekktir fyrir að koma rólegir í Toyota-höllina og því mátti búast við hörku leik í kvöld.

Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur og komust strax í 13-3 eftir nokkrar mínútur. Keflvíkingar voru greinilega virkilega vel stemmdir og mikil barátta einkenndi leik þeirra. KR-ingar voru aðeins skugginn af sjálfum sér og lítið virtist ganga upp hjá þeim. Staðan var 29-18 eftir fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti hófst rétt eins og sá fyrsti en Keflvíkingar héldu áfram að keyra á KR-inganna og náðu fljótlega 17 stiga forystu , 35-18. Gestirnir virtust þá hrökkva í gang og sóknarleikur þeirra fór að ganga mun betur. Hægt og rólega komst KR meira inn í leikinn og staðan í hálfleik var 53-45 og allt galopið.

Þriðji fjórðungurinn fór fjörlega af stað og núna voru það gestirnir í KR sem voru að spila vel. Munurinn var lítill á liðunum nánast allan fjórðunginn og staðan 76-69 fyrir lokaleikhlutann. Pavel Ermolinskij, leikmaður KR, lenti snemma í síðari hálfleiknum í villuvandræðum en hann lét mikið dæma á sig sóknarvillu og lék nánast ekkert í þriðja leikhlutanum.

Loka fjórðungurinn var mjög svo spennandi og fá stig skyldu liðin að nánast allan leikhlutann. Þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum náðu KR-ingar að jafna leikinn 86-86. Heimamenn héldu engu að síður áfram sínum leik og náðu að innbyrða frábæran vinnusigur í lokin. Hörður Axel Vilhjálmsson var mikilvægur undir lokin á vítalínunni, en hann steig ekki feilspor á punktinum í fjórða leikhlutanum.

Lazar Trifunovic var atkvæðamestur hjá Keflavík með 26 stig en maður leiksins var Marcus Walker, leikmaður KR-ingar en hann skoraði 28 stig.

Keflvíkingar léku virkilega vel á köflum í leiknum og eru heldur betur mættir á þetta Íslandsmót.

Keflavík - KR 95-91 (53-45)

Keflavík: Lazar Trifunovic 26/ 10 fráköst/ 5 stoðsendingar, Valentino Maxwell 21/6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 18/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 15/6 fráköst, Gunnar Einarsson 8, Jón Nordal Hafsteinsson 6/3 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 6/4 fráköst.

KR: Marcus Walker 28/5 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 13/9 fráköst, Fannar Ólafsson 13/7 fráköst, Hreggviður Magnússon 13/ 5 fráköst, Finnur Atli Magnússon 10/6 fráköst, Pavel Ermolinskij 9/4 fráköst, Skarphéðin Ingason 2, Ólafur Már Ægisson 3.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×