Fótbolti

Mourinho vill hafa Zidane með sér á hliðarlínunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid.
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid. Nordic Photos / AFP
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, vill að Zinidine Zidane eyði minni tíma á skrifstofu Real Madrid og verði oftar sér við hlið á hliðarlínunni í leikjum liðsins.

Þetta sagði Mourinho við franska fjölmiðla í síðasta mánuði og spænska dagblaðið Marca greindi frá því í dag að Zidane hafi hitt forseta félagsins, Florentino Perez, og framkvæmdarstjóra, Jorge Valdano, að máli til að ræða þetta nýja hlutverk sitt nánar. Svo gæti farið að Zidane verði á hliðarlínunni þegar að Real mætir AC Milan í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn kemur.

„Ég vil vera tengiliður liðsins og forsetans og vera virkari þáttatkandi í starfi félagsins," er haft eftir Zidane í Marca.

Zidane er einn besti knattspyrnumaður sögunnar og gekk til liðs við Real Madrid fyrir metfé árið 2001. Hann lagði skóna á hilluna eftir HM 2006.

„Þegar maður ræðir við Mourinho gerir maður sér fljótt grein fyrir því að hann veit fullkomnlega hvert hann er að stefna og hvernig hann ætlar sér að komast þangað," sagði Zidane við franska fjölmiðla nýverið.

„Það er enginn vafi á því að Real Madrid þurfti á manni eins og honum að halda. Ég hefði sjálfur gjarnan viljað hafa hann sem þjálfara þegar ég var enn að spila."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×