Íslenski boltinn

Gylfi Þór: Vissi að hann færi í samúel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar
Gylfi var frábær í kvöld.
Gylfi var frábær í kvöld.

Blaðamaður Vísis hitti skælbrosandi Gylfa Þór Sigurðsson eftir sigurinn glæsilega á Skotum í Edinborg í kvöld.

Gylfi tryggði sigurinn með tveimur mörkum sem lengi verða í minni höfð. Tveir glæsilegir þrumufleygar sem kom Íslandi í hóp átta bestu knattspyrnuþjóða í Evrópu í flokki U-21 landsliða.

„Hægri fóturinn hefur það bara ansi gott,“ sagði hann brosandi. „Það er smá þreyta í honum en mér er alveg sama. Þetta var bara fáránlegt. Ég vissi strax að hann færi beint upp í „samúel“. Ég hitti hann svo vel - ég sá að hann væri að fara beint áfram og upp í skeytin,“ sagði hann um seinna markið.

„Jói [Jóhann Berg] skoraði fínt mark í fyrri leiknum og var eitthvað að rífa sig eftir hann. Ég reyndi því að gera betur í dag. Ég var ekki alveg nógu sáttur við fyrsta markið og því vildi ég gera betur í því seinna. Ég held að ég hafi unnið hann í dag.“

„En þetta var langur leikur. Við byrjuðum ekki nógu vel og vorum á hælunum. Þeir sóttu meira en við bjuggumst við. Við vorum seinir í alla bolta og vorum ekki nógu nálægt þeim. Við reyndum að rífa okkur upp í seinni hálfleik og fara að spila okkar bolta. Það gekk ágætlega og við náðum að setja tvö mörk á þá.“

„Arnar Darri [Pétursson, markvörður] reyndi svo að gera þetta spennandi. Ég veit ekki hvað hann var að gera,“ sagði Gylfi og hló.

„En við náðum að vinna og það er það sem skiptir máli. Þetta er frábært og gerist ekki betra. Tilfinningin er ólýsanleg og við ætlum að njóta hennar, alla vega í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×