Fótbolti

Valur Fannar: Vitum ekkert hvað við erum að fara út í

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Valur Fannar í leik gegn Fram á sunnudaginn.
Valur Fannar í leik gegn Fram á sunnudaginn. Fréttablaðið/Valli
Fylkismenn eru mættir til Hvíta-Rússlands þar sem þeir mæta Zhodino í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA á morgun.

„Þetta var bara flug til Berlínar og svo í einn og hálfan tíma til Minsk. Þetta er alls ekki erfitt ferðalag og það væsir ekkert um okkur hér. Þetta lítur allt mjög vel út og betur en margur áætlar. Við vorum reyndar í tvo tíma að fara í gegnum vegabréfaeftirlitið en það er nokkuð eðlilegt hérna skilst mér,“ sagði fyrirliðinn, Valur Fannar Gíslason.

Það er mikið álag á liðinu sem spilaði gegn Grindavík á sunnudag þar sem liðið vann 2-1, það spilar svo á morgun og næst á sunnudaginn. „Sá leikur gæti reyndar verið færður fram á mánudaginn en það skiptir ekki öllu máli, við eigum leik strax á fimmtudeginum eftir það en við vissum alltaf að þetta yrði svona,“ sagði Valur og liðið leikur því fjóra leiki á tólf dögum.

Allir skiluðu sér með skó og farangur en liðið æfir í dag en var í fríi í gærkvöldi. Valur veit nákvæmlega ekkert um andstæðinginn og því fara Fylkismenn hálfblindir inn í leikinn.

„Þeir hafa unnið tvo leiki af níu í deildinni og eru frekar neðarlega þar. Þeir komust í keppnina af því þeir spiluðu bikarúrslitaleik við BATE en töpuðu samt,“ sagði Valur og bætti við að það væri lítið að finna á Youtube af liðinu.

„Það frægasta sem við fundum var að dómari sem dæmdi einu sinni fullur dæmdi leik hjá þeim. Fjalar markmaður fann þetta á Netinu. En annars vitum við það lítið að við ætlum bara að fara rólega inn í leikinn, við vitum að hér er hefð fyrir góðum knattspyrnumönnum."

"Við vitum ekkert hvað við erum að fara út í og byrjum rólega en breytum svo bara ef við þurfum,“ sagði Valur Fannar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×