Körfubolti

Umfjöllun: Létt verk og löðurmannlegt hjá Keflavík

Elvar Geir Magnússon í Keflavík skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Keflavík er komið í undanúrslit Iceland Express-deildarinnar eftir að hafa unnið Tindastól örugglega í oddaleik í Toyota-sláturhúsinu í kvöld 107-78. Keflvíkingar hertu tökin í öðrum leikhluta og gestirnir áttu aldrei möguleika eftir það.

Stemningin var góð á leiknum enda Joey Drummer mættur með trommusveitina og þá var rútuferð frá Sauðárkróki og dágóður fjöldi áhorfenda á bandi gestaliðsins. Þeir létu vel í sér heyra til að byrja með en minna fór fyrir þeim eftir því sem á leikinn leið.

Stólarnir byrjuðu leikinn af krafti en heimamenn voru með þriggja stiga forystu að loknum fyrsta leikhluta. Í upphafi annars leikhluta jafnaði Tindastóll og jafnræði var með liðunum. Þá spíttu Keflvíkingar í lófana og réðu lögum og lofum fram að hálfleik. Hörður Axel Vilhjálmsson og Sigurður Þorsteinsson voru báðir í miklum ham hjá heimamönnum og varnarfráköst Draelon Burns voru mikilvæg en Cedric Isom dró vagninn fyrir gestina. Staðan 49-35 í hálfleik.

Eftir hlé var þetta aldrei spurning. Öll tök voru heimamanna sem voru 24 stigum yfir fyrir síðasta fjórðunginn og bara formsatriði að klára leikinn. Þeir unnu á endanum 29 stiga sigur og mæta Njarðvíkingum í undanúrslitum.

Keflvíkingar eru einfaldlega of sterkir fyrir Stólana, hafa mun meiri breidd og spiluðu flotta vörn sem var lykillinn að sigrinum í kvöld. Stólarnir eru því komnir í sumarfrí.

Sigurður Þorsteinsson var stigahæstur í annars jöfnu liði Keflavíkur, skoraði 21 stig og tók 6 fráköst. Urule Igbavboa skoraði 18 stig og tók 6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson var með 16 stig, Draelon Burns 14 og tók 8 fráköst og þá skoraði Jón Nordal Hafsteinsson 12 stig.

Helgi Rafn Viggóson Cedric Isom fóru fyrir liði gestana. Helgi gerði 24 stig og Isom 17 stig og tók að auki 9 fráköst.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×