Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar: Sýnum bandaríska liðinu enga virðingu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson. vísir/stefán
„Mér líður ótrúlega vel. Þetta er alveg frábær tilfinning," sagði sigurreifur landsliðsþjálfari kvenna, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, við Vísi skömmu eftir að liðið hafði tryggt sér sæti í úrslitaleik hins sterka Algarve-móts.

Íslensku stelpurnar lögðu Dani í dag, 0-1, en jafntefli hefði dugað til þess að fleyta liðinu í úrslit.

„Þetta var baráttuleikur. Við spiluðum vel. Danir voru meira með boltann en við vörðumst vel og gáfum fá færi á okkur. Ég var ósáttur við vítið sem þær fengu en Þóra varði sem betur fer. Þessi leikur þróaðist í raun svipað og hinir leikirnir í mótinu og endaði með sigri," sagði Sigurður en þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins á Dönum.

Fram undan er leikur gegn hinu frábæra bandaríska liði og Sigurður segir að stelpurnar muni mæta grimmar til leiks.

„Ætlum að ljúka mótinu með sóma. Ný reynsla að komast í úrslitaleik en við mætum ákveðnar og ætlum að selja okkur dýrt. Stelpurnar hafa mikið sjálfstraust og það minnkaði ekki með þessum leik í dag. Við munum ekki sýna þeim neina virðingu."

Nánar verður rætt við Sigurð Eyjólf í Fréttablaðinu á morgun.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×