Körfubolti

Hrafn: Kara er mesta keppnismanneskja sem ég hef þjálfað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, var í viðtali hjá Guðjóni Guðmundssyni, íþróttafréttamanni á Stöð 2 þar sem þeir ræddu leikbann leikmanns hans Margrétar Köru Sturludóttur. Margrét Kara var dæmd í tveggja leikja bann fyrir að slá til Haukastelpunnar Maríu Lindar Sigurðardóttur í leik Hauka og KR fyrir rúmri viku.

„Ég er aldrei sáttur þegar svona gerist og Kara er allra síst sátt við þetta. Þetta er einstakur íþróttamaður og mesta keppnismanneskja sem ég hef þjálfað. Í þetta skipti bar keppnisskapið henni ofurliði," sagði Hrafn en það má horfa á allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.

„Ég hef vissulega skilning á því að Haukarnir standi með sínum leikmanni og að þeir hafi viljað fá lengra bann. Mér finnst hinsvegar yfirlýsing þess efnist um að það hafi vantað afsökunarbeiðni vera frekar furðuleg. Ég myndi halda að persónuleg afsökunarbeiðni auglitis til auglitis vegi meira en einhver uppkokkuð afsökunarbeiðni á netinu sem er skrifuð af einhverjum stjórnarmanninum," sagði Hrafn.

„Kara var algjörlega eyðilögð eftir að þetta gerðist og hún hefur hlotið sinn dóm. Þetta verður bara að fá að ganga sinn veg og ef Haukar ætla að áfrýja dómnum til KKÍ þá verður hún væntanlega ekki í banni á laugardaginn. Það situr enginn af sér refsingu þegar menn eru að áfrýja hennar máli í von um meiri refsingu," sagði Hrafn en hann vill ekki meina að þetta mál muni trufla mikið undirbúning KR fyrir undanúrslitaeinvígið á móti Keflavík.

„Þetta truflar okkur ekki eins mikið og ég held að fólk voni. Þetta gerir okkur mun einbeittari í okkar undirbúningi," sagði Hrafn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×