Fótbolti

Balotelli þarf að fullorðnast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Mario Balotelli hefur fengið þau skilaboð frá forráðamönnum ítalska landsliðsins að hann þurfi að taka út ákveðinn þroska áður en hann getur aftur spilað með landsliðinu.

Balotelli er á mála hjá Manchester City í Englandi og var ekki valinn í ítalska landsliðið sem mætti Slóveníu í undankeppni EM 2012 á föstudagskvöldið en liðið leikur vináttulandsleik gegn Úkraínu á morgun.

Giancarlo Abete, forseti ítalska knattspyrnusambandsins, segir að Balotelli hafi brotið agareglur liðsins í tengslum við atvik sem kom upp hjá City. Samkvæmt fréttum enskra miðla mun hann hafa kastað pílum í átt að nokkrum af yngri leikmönnum liðsins.

„Balotelli er enn að glíma við ákveðin vandamál og skortir stöðugleika,“ sagði Abete. „Hann þarf að fullorðnast og hann verður að vilja það sjálfur.“

Landsliðsþjálfarinn Cesare Prandelli segir að Balotelli sé sjálfum sér verstur. „Ég óttast að í ákveðnum tilfellum hafi hegðun utan vallar áhrif á spilamennskuna inn á vellinum,“ sagði hann. „Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerðist og ég vil ekki blanda mér í þessi mál. Kannski leiddist honum en næst þegar honum leiðist má hann hringja í mig.“

„En allir þurfa að bera ábyrgð á eigin gjörðum og ég vil vera með leikmenn í landsliðinu sem gera það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×