Keflvíkingar hafa fengið nýjan bandarískan leikmann fyrir leik liðanna gegn KR í undanúrslitarimmu liðanna í Iceland Express-deild kvenna. Það er karfan.is sem greinir frá þessu.
Sú heitir Lisa Karcic og spilaði síðast í Finnlandi þar sem hún var með átján stig og þrettán fráköst að meðaltali í leik.
Jacquline Adamshick hefur spilað með Keflavík í vetur en það fékkst staðfest í gær að hún er ristarbrotin og geti því ekki spilað meira með liðinu í vetur.
Það þurfti að hafa hraðar hendur að finna nýjan leikmann og gat Adamshick hjálpað til því Krasic er góð vinkona hennar frá því að þær léku saman í háskólaliði Villanova í Bandaríkjnum.
Krasic kom til landsins laust eftir miðnætti í gær en Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, sagði við körfuna.is að hún hefði aðeins haft tvo og hálfan tíma til að ganga frá sínum málum í Finnlandi og koma sér út á flugvöll.
Það hafa einnig verið mannabreytingar í liði KR eftir að Chazny Morris reif liðþófa í hné. KR fékk þá Melissu Jeltema sem átti ríkan þátt í sigri KR gegn Keflavík á þriðjudagskvöldið.
Staðan í einvígi liðanna er 1-1 og hefur Margrét Kara Sturludóttir, leikmaður KR, misst af báðum leikjunum vegna leikbanns. Hún hefur þó nú tekið út sína refsingu og verður með gegn Keflavík í kvöld.

