Körfubolti

Hrafn: Það er enginn þreyttur eða meiddur

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Hrafn Kristjánsson þjálfari KR.
Hrafn Kristjánsson þjálfari KR.
„Við erum bara vel stemmdir og allir heilir í okkar liði. Við erum komnir áleiðis á þann stað sem við ætluðum okkur fyrir tímabilið og það er tilhlökkun í okkar liði," sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari KR við visir.is í dag en í kvöld hefst úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla þegar Stjarnan úr Garðabæ kemur í heimsókn í DHL-höll KR-inga.

„Það er ekkert vanmat í gangi hjá okkur og Stjarnan er með vel mannað lið sem er komið alla leið í úrslit. Þeir ætla eflaust að leika svæðisvörn gegn okkur og við höfum aðeins undirbúið okkur fyrir slíkt og einnig höfum við verið að skoða okkar leik og hvernig við ætlum að bregðast við þeirra sóknarleik," sagði Hrafn en KR tryggði sér sæti í úrslitum eftir magnað rimmu í undanúrslitum gegn Keflavík þar sem úrslitin réðust í oddaleik s.l. fimmtudag.

„Það er enginn þreyttur eða meiddur í mínu liði. Við ætluðum okkur að komast í þessa stöðu og það hefur rekið okkur áfram. Stuðningsmenn KR hafa líka verið frábærir og frumkrafturinn kemur frá þeim. Við vonum að þeir mæti líka í kvöld og ég veit að stuðningsmenn Stjörnunnar hafa verið duglegir að kaupa miða á leikinn. Þeir gætu orðið fleiri en Keflvíkingar í oddaleiknum. Þetta verður því bara mikil skemmtun fyrir alla," sagði Hrafn við visir.is í dag.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og er hann í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.


Tengdar fréttir

Teitur: Skrítið að fara í svona langt frí

Stjarnan gerði sér lítið fyrir og sópaði Íslandsmeisturum Snæfells í frí á lokadegi síðasta mánaðar. Síðan þá hafa Teitur Örlygsson og lærisveinar hans fylgst með rimmu KR og Keflavíkur af hliðarlínunni og beðið eftir því að fá að spila á nýjan leik. Biðinni löngu er lokið því KR tekur á móti Stjörnunni klukkan 19.15 í kvöld í fyrsta leik liðanna um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×