Íslenski boltinn

Kristján: Nýjar breytur í þessu Íslandsmóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals, byrjar frábærlega með Hlíðarendaliðið. Hann er þegar búinn að gera Valsmenn að Reykjavíkurmeisturum og í gær kom hann liðinu í úrslitaleik Lengjubikarsins eftir 2-1 sigur á FH í framlengdum undanúrslitaleik í Kórnum.

„Ég veit ekki hvort að þetta hafi verið sanngjarn sigur því það voru færi á báða bóga. Við vorum heppnir því Halli reddar okkur með því að verja vítið og það var flott hjá honum að halda okkur inn í leiknum þar. Svo fengu þeir dauðafæri rétt fyrir lok venjulegs leiktíma en svo fannst mér við vera sterkari í framlengingunni og náðum að ýta þar inn einu marki," sagði Kristján í viðtali við Eirík Stefán Ásgeirsson eftir leikinn.

„Hugarfarið er í góðu lagi í liðinu, við erum allir að vinna í sömu átt og það sést vel á leik liðsins," sagði Kristján.

„Þetta verður spennandi sumar því það eru nýjar breytur í þessu Íslandsmóti núna. Athyglin er svolítið á umhverfið, veður og aðstæður af því að þetta er að byrja fyrr. Þetta verður mjög skemmtilegt og svo kemur önnur breyta í júní þegar það kemur hlé í mótið og það verður athyglisvert að sjá hvernig menn vinna úr því," sagði Kristján.

„Við settum það sem markmið að komast í þennan úrslitaleik og nú verður spennandi að sjá hvort okkur takist að vinna Lengjubikarinn. Það verður erfitt að eiga við Fylkismennina en jafnfram spennandi og skemmtilegt," sagði Kristján en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×