Íslenski boltinn

Þriðji landsleikurinn í röð sem Ragnar dregur sig út úr hópnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Sigurðsson í síðasta landsleik sínum á móti Portúgal.
Ragnar Sigurðsson í síðasta landsleik sínum á móti Portúgal. Mynd/Vilhelm
Ragnar Sigurðsson, glænýr leikmaður danska liðsins FC Kaupmannahafnar, verður ekki með íslenska landsliðinu á móti Dönum á Laugardalsvellinum á laugardaginn ekki frekar en verðandi liðsfélagi hans Sölvi Geir Ottesen sem er meiddur.

Þetta er þriðji landsleikurinn í röð sem Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, velur Ragnar í landsliðið en hann dregur sig síðan út úr hópnum. Ragnar gat ekki verið með liðinu á móti Kýpur í mars eða á móti Ísrael í nóvember vegna veikinda.

Ragnar á að baki sextán landsleiki þarf af hefur hann spilað ellefu þeirra undir stjórn Ólafs. Ragnar lék sinn síðasta landsleik í 1-3 tapi fyrir Portúgal á Laugardalsvellinum í október en hann byrjaði þá sem miðvörður með Kristjáni Erni Sigurðssyni.

Ragnar hafði verið á bekknum í þremur landsleikjum á undan Portúgalsleiknum og kom ekkert við sögu í fyrstu tveimur leikjunum í undankeppninni sem voru á móti Norðmönnum og Dönum.

Tilkynningar KSÍ varðandi Ragnar í síðustu þremur landsleikjum:31.5.2011

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur valið Harald Frey Guðmundsson í hópinn fyrir leikinn gegn Dönum sem fer fram næstkomandi laugardag á Laugardalsvelli.  Haraldur tekur sæti Ragnars Sigurðssonar sem dró sig út úr hópnum.

22.3.2011

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur gert breytingu á hópnum er mætir Kýpur í undankeppni EM á laugardaginn.  Ólafur hefur valið Helga Val Daníelsson inn í hópinn í stað Ragnars Sigurðssonar sem á við veikindi að stríða.

14.11.2010

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur gert breytingar á landsliðshóp sínum en framundan er vináttulandsleikur gegn Ísrael ytra.  Leikurinn fer fram miðvikudaginn 17. nóvember í Tel Aviv.  Ragnar Sigurðsson fór ekki með hópnum í morgun vegna veikinda og hefur Matthías Vilhjálmsson FH verið valinn í hans stað.  Þá var Jón Guðni Fjóluson Fram einnig bætt í hópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×