Fótbolti

Messi skoraði þrennu á sautján mínútum - 5-0 sigur Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Messi fagnar einu marka sinna í dag.
Messi fagnar einu marka sinna í dag. Nordic Photos / AFP
Barcelona vann í kvöld auðveldan 5-0 sigur á Real Mallorca í spænsku úrvalsdeildinni en Lionel Messi gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu á aðeins sautján mínútum í fyrri hálfleik.

Barcelona er enn taplaust á leiktíðinni en hefur gert þrjú jafntefli. Messi hefur skorað nú þrettán mörk í tíu leikjum á leiktíðinni en var engu að síður nokkuð gagnrýndur fyrir að skora ekkert í síðustu þremur leikjum Barcelona, bæði í spænsku úrvalsdeildinni sem og Meistaradeild Evrópu.

Messi hefur nú svarað þeim gagnrýnisröddum með þremur mörkum. Það fyrsta skoraði hann úr vítaspyrnu eftir að Nsue var dæmtur brotlegur fyrir að handleika knöttinn í eigin vítateig.

Það mark kom á 13. mínútu og átta mínútum síðar var hann búinn að skora aftur. Isaac Cuenca gaf boltann fyrir markið og skoraði Messi af stuttu færi. Hann fullkomnaði svo þrennuna með marki eftir fyrirgjöf Dani Alves.

Cuenca var að spila sinn annan leik með aðalliði Barcelona og hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í seinni hálfleik með föstu skoti. Dani Alves gat ekki verið minni maður og skoraði fimmta mark Börsunga með neglu í uppbótartíma.

Barcelona kom sér á topp deildarinnar með sigrinum en liðið er með 24 stig að loknum tíu leikjum. Levante og Real Madrid eiga þó bæði leik til góða og geta komið sér upp fyrir Barcelona sigri þau sína leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×