Fótbolti

Sporting Gijón stöðvaði sigurgöngu Barcelona í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andres Iniesta hjá Barcelona í baráttu við Nacho Novo, leikmann Sporting de Gijon.
Andres Iniesta hjá Barcelona í baráttu við Nacho Novo, leikmann Sporting de Gijon. Mynd/AP
Sporting Gijón varð í kvöld aðeins þriðja liðið í spænsku úrvalsdeildinni í vetur til þess að ná stigi af Spánarmeisturum Barcelona þegar Sporting Gijón og Barcelona gerðu 1-1 jafntefli. Þetta voru fyrstu stigin sem Barcelona tapar á útivelli á tímabilnu.

Barcelona var búið að vinna sextán deildarleiki í röð fyrir leikinn en er nú með átta stiga forskot á Real Madrid sem á leik inni á móti Espanyol á morgun.

Barcelona var búið að vinna alla deildarleiki sína síðan 3. október þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Real Mallorca og þetta var jafnframt fyrsti útileikur liðsins á tímabilinu sem Barcelona vinnur ekki.

David Barral kom Sporting Gijón yfir strax á 16. mínútu leiksins og þannig var staðan í 64 mínútur.

David Villa jafnaði leikinn á 80.mínútu eftir að hafa fengið sendingu frá Lionel Messi. Villa sá að markvörður Sporting var kominn of framarlega og lyfti boltanum lagleg yfir hann frá vítalínu.

Barcelona var í stórsókn allan leikinn og pressan var gríðarleg í seinni hálfleiknum. Sporting Gijón tókst hinsvegar að halda út og tryggja sér stig. Liðið er í 13. sæti deildarinnar en hafði unnið 3 af síðustu 4 leikjum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×