Haukar hafa ákveðið að bæta erlendum leikmanni við kvennalið sitt. Breski bakvörðurinn Lauren Thomas-Johnson mun leika með liðinu fram á vor en fyrir er bandaríski bakvörðurinn Kathleen Patricia Snodgrass.
Lauren Thomas-Johnson er 22 ára og 178 sm bakvörður sem kemur fram Manchester-borg í Englandi. Hún byrjaði háskólanám sitt í Kirkwood CC háskólanum í Bandaríkjunum en skipti síðan yfir í Marquette-skólann þar sem hún lék síðustu tvö tímabil.
Thomas-Johnson var með 8,2 stig, 2,2 fráköst og 1,1 stoðsendingu að meðaltali á lokaári sínu í skólanum en hún var þá valinn mikilvægasti varnarmaður liðsins.
Thomas-Johnson vann áður tvo NJCAA-meistaratila með Kirkwood-skólanum en NJCAA stendur fyrir National Junior College Athletic Association.
Thomas-Johnson var í leikmannahópi breska landsliðsins í undankeppni EM í haust en komst ekki í liðið. Hún hefur leikið marga landsleiki fyrir yngri landslið Englands
Hún lék einu sinni með 18 ára landsliði Englands á móti Íslandi (á EM í Bosníu 2005) þar sem einn leikmaður íslenska landsliðsins, Guðrún Ósk Ámundadóttir, er nú orðin samherji Thomas-Johnson í Haukaliðinu.
„Lauren er kröftugur leikmaður og mun án efa styrkja okkur í þeirri baráttu sem framundan er. Það hefur vantað herslumuninn hjá okkur í mörgum leikjum og með komu þessa leikmanns er þess freistað að auka stjálfstraust liðsins og vonumst við til að geta tryggt okkur sæti í efri hluta deildarinnar í næstu tveimur leikjum," segir Henning Henningsson, þjálfari Hauka í viðtali við heimasíðu félagsins.
