Enski boltinn

Sepp Blatter: Spænska deildin er sú besta í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA, með besta knattspyrnufólki heims - Lionel Messi og Mörtu.
Sepp Blatter, forseti FIFA, með besta knattspyrnufólki heims - Lionel Messi og Mörtu. Mynd/AFP
Sepp Blatter, forseti FIFA, er þeirrar skoðunar að spænska deildin sé sú besta í heimi og að enska úrvalsdeildin geti lært mikið af kollegum sínum í suðri. Blattar rökstuddi þetta með því að átta leikmenn úr spænsku deildinni voru valdir í úrvalslið ársins hjá FIFA og að Spánn sé heimsmeistari í fótbolta.

„Spænska deildin hlýtur að vera sú sterkasta í heimi. Allir leikmenn í byrjunarliði heimsmeistaranna spila í deildinni og hún er með hæsta hlutfallið af heimamönnum," sagði Sepp Blatter við CNN World Sport.

„Enska úrvalsdeildin er hinsvegar besta markaðssetta deildin í heimi. Enska deildin er góð með mörgum góðum leikmönnum. Það er samt enginn leikmaður hennar í úrvalsliði ársins sem ætti að gefa Englendingum ástæðu til að reyna að læra eitthvað af öðrum deildum," sagði Blatter.

Lionel Messi var valinn besti knattspyrnumaður heims en þrír bestu leikmennirnir spila allir á Spáni.

„Leo Messi er yndislegur fótboltamaður og góður strákur. Hann er mjög auðmjúkur og er ekki með neinn leikaraskap á vellinum. Messi er ekki leikari," sagði Blatter og bar Messi síðan saman við Diego Maradona.

„Messi og Maradona eru báðir hæfileikaríkir leikmenn. Þeir gætu ekki verið betri í fótbolta en munurinn liggur í persónum þeirra. Annar er enn í fótbolta, hógvær og laus við alla sýndarmennsku en hinn fór alltaf í aðra átt," sagði Blatter.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×