Skoðun

Þöggun Samtaka sauðfjárbænda?

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Samtök sauðfjárbænda hafa beitt fjárhagslegu áhrifavaldi sínu og sagt upp verkefnasamstarfi við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vegna greinaskrifa og ályktana Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði við HÍ. Vissulega geta bændasamtökin beint viðskiptum sínum þangað sem þeim hentar en ætti það þá ekki einnig að gilda um okkur, kaupendur framleiðsluvara bænda? En eins og allir vita standa samtök bænda þétt með stjórnvöldum í því að hindra að íslenskir neytendur geti, að eigin vild, keypt erlendar landbúnaðarvörur.

Í greinunum, sem að sögn Þórólfs byggja á gögnum frá Bændasamtökunum sjálfum, eru upphæðir ríkisstyrkja til landbúnaðar gagnrýndar, fyrirkomulagið talið hefta framþróun í greininni og vera andstætt hagsmunum bænda og skattgreiðenda. Íslenskur landbúnaður fær einhverja hæstu ríkisstyrki í heimi samkvæmt OECD. Heildartilfærslur frá skattgreiðendum eru árlega 11 milljarðar og innflutningsverndin kostaði neytendur annað eins til skamms tíma, þó að lágt gengi krónunnar nú hafi lækkað þá upphæð.

Hagsmunasamtök bænda fá af ríkisstyrknum til starfsemi sinnar.

Þessi háu framlög til íslensks landbúnaðar eru öðru hverju gagnrýnd, en því miður hafa stjórnmálamenn og við sem störfum innan stjórnmálaflokka lítið látið okkur landbúnaðarkerfið varða, síðan Alþýðuflokkurinn var og hét, e.t.v. vegna skorts á þekkingu á kerfinu. Fréttir berast reglulega um að samningar stjórnvalda við bændur hafi verið framlengdir en engin umræða fer fram. Fjölmiðlar eða fræðimenn hafa lítið hjálpað okkur síðan hagfræðingarnir Þorvaldur Gylfason og Guðmundur Ólafsson gagnrýndu og greindu landbúnaðarkerfið ötullega fyrir allmörgum árum. Nú hefur Þórólfur Matthíasson sett málið rækilega á dagskrá í greinum í Fréttablaðinu að undanförnu. Ég þakka honum kærlega fyrir það og þá vinnu sem hann hefur lagt í greininguna, sem er kjörin til að byggja umræðu á.

Eitt af því sem gagnrýnt var eftir hrun var skortur á gagnrýni og fræðilegri greiningu á íslenska fjármálakerfinu. Horft var m.a. til fræðimanna háskóla og þeir taldir hafa brugðist íslenskum almenningi. Markmið fræðilegrar umræðu um landbúnaðarkerfið er að bæta kerfið og gera það markvissara fyrir bændur og skattgreiðendur. Með fræðilegri greiningu á landbúnaðarkerfinu eru háskólakennarar því að rækja skyldur sínar við þá sem greiða þeim laun, íslenska skattgreiðendur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×