Sport

Skotsýning fyrir mömmu og pabba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon hafði mest skorað 19 stig í sænsku úrvalsdeildinni fyrir leikinn á föstudaginn var
Helgi Már Magnússon hafði mest skorað 19 stig í sænsku úrvalsdeildinni fyrir leikinn á föstudaginn var Mynd/Anton
Landsliðsmaðurinn Helgi Már Magnússon setti nýtt og glæsilegt stigamet í 90-81 sigri 08 Stockholm á Uppsala á föstudagskvöld. Það var ekki nóg með að Helgi bætti sitt persónulega met í sænsku deildinni um heil 20 stig heldur tók hann einnig stigamet Íslendings í deildinni af Loga Gunnarssyni.

Helgi Már klikkaði á þremur fyrstu skotum sínum í leiknum og var bara kominn með 7 stig í hálfleik. Hann skoraði síðan 32 stig í seinni hálfleiknum og hitti þá úr 11 af 12 skotum sínum utan af velli.

„Þetta var einn af þessum dögum sem allt gekk upp. Fyrri hálfleikurinn var allt í lagi en í seinni hálfleik fékk ég nokkur opin skot í byrjun sem ég setti niður og eftir það gekk allt upp,“ sagði Helgi Már. Logi hafði mest skorað 38 stig í sigri Solna á 08 Stockholm fyrir rétt rúmu ári.

„Það var með ráðum gert að komast í 39 og upp fyrir Loga,“ sagði Helgi Már í léttum stríðnistóni þegar hann frétti af nýja stigametinu sínu. „Ég held að þetta sé persónulegt met hjá mér og þá skiptir engu máli um hvaða flokk er verið að tala um. Það er alltaf gaman að standa sig á móti sínu gamla liði,“ sagði Helgi Már sem spilaði með Uppsala-liðinu í vetur.

„Þetta er ekki eitthvað sem ég geri á hverjum degi að skora 30 og eitthvað stig. Þetta var mjög skemmtilegt. Ég held ég hafi einu sinni náð því að skora 30 stig í háskóla en ég hef aldrei verið þessi spilari. Það er gaman að sjá að maður getur þetta að minnsta kosti,“ segir Helgi.

Helgi Már og félagar í 08 Stockholm HR hafa unnið fjóra af fyrstu sjö leikjum sínum og eru eins og er í 6. sætinu.

„Við stefnum á að vera í einu af efstu fjórum sætunum og ef við ætlum okkur eitthvað í vetur þá verðum við að geta unnið gott lið eins og Uppsala á okkar heimavelli. Þetta var mjög kærkominn sigur,“ segir Helgi og finnur sig vel með nýja liðinu.

„Það gengur ágætlega. Við erum nokkrir að berjast um sömu stöðuna og þjálfarinn er búinn að gefa það út að sá sem stendur sig best fær flestar mínútur í það skiptið. Ég hef verið að byrja mikið á bekknum og uppleggið í þessum leik var bara svipað og er búið að vera í síðustu leikjum,“ segir Helgi Már.

Helgi kann vel við uppleggið í liðinu. „Það vill svo skemmtilega til að það er enginn Ameríkani í liðinu. Þetta eru allt bara Svíar og ég. Hingað til höfum við verið lausir við að það sé einhver eigingirni í liðinu og menn eitthvað að hugsa um rassinn á sjálfum sér eða að reyna að ná í góða tölfræði,“ segir Helgi sem er sjálfur mikill liðsmaður og oftar en ekki að gera þá hluti vel sem koma ekki fram í tölfræðinni. Helgi og kærasta hans, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, eignuðust strák 30. september síðastliðinn og voru foreldrar hans í heimsókn í síðustu viku.

„Mamma og pabbi voru í stúkunni. Þau voru í heimsókn og náðu þessum eina leik. Þau komu í vikunni til að hitta drenginn og náðu þessum leik. Það gerði þetta aðeins skemmtilegra að hafa þau þarna í stúkunni og svo ég tali ekki um að vera að spila á móti Uppsala,“ segir Helgi. En hvað með framhaldið?

„Við skulum vona að þjálfarinn setji eitthvað meira upp fyrir mig í næstu leikjum. Ef þeir vilja setja pressu á að ég skori meiri þá er eins gott að þeir hlaupi fleiri kerfi fyrir mig,“ segir Helgi léttur að lokum.ooj@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×