Kvennalið Hamars getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna í körfubolta með því að vinna Keflavík í uppgjöri tveggja efstu liðanna í Hveragerði í dag. Leikurinn hefst klukkan 17.00.
Hamar er búið að vinna sextán fyrstu deildarleiki sína í vetur þar á meðal tvo sigra á Keflavíkurliðinu. Vinni liðið leikinn í dag nær Hamarsliðið átta stiga forskoti á Keflavík þegar liðin eiga aðeins þrjá leiki eftir.
Deildarmeistarnir munu hafa heimavallarrétt út alla úrslitakeppnina. Hamarskonur hafa aldrei unnið deildarmeistaratitilinn en þetta er fimmta tímabil liðsins í efstu deild.
Þetta verður fyrsti leikur Hamars og Keflavík síðan að Keflavíkurliðið bætti við sig serbneska bakverðinum Marinu Caran en hún hefur tekið þátt í tveimur síðustu leikjum Keflavíkur, sigri á Njarðvík í undanúrslitaleik bikarsins og sigri á Haukum í deildinni.
Hamar hafði unnið síðasta leik liðanna með 32 stigum, 95-63, þegar þau mættust í Hveragerði 22. janúar síðastliðinn en Hamar vann síðan þriggja stiga sigur, 72-69, í Keflavík þegar liðin mættust þar í nóvember.

