Enski boltinn

Salan á Tevez tefst enn - City og AC Milan náðu ekki samkomulagi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það ætlar að ganga illa hjá Manchester City að losa sig við Argentínumanninn Carlos Tevez en City náði ekki samkomulagi við AC Milan þegar forráðamenn félaganna hittust í London í gær.

Forseti Inter Milan hafði áður gefist upp í baráttunni við AC Milan um Tevez og talaði þá um að argentínski framherjinn væri á leið til nágrannanna í AC Milan. Guardian segir síðan frá því í morgun að viðræðunum hafi verið hætt.

AC Milan var í vandræðum með að redda 20 til 25 milljónum til að kaupa Tevez og það varð enn erfiðara fyrir Ítalina eftir að það kom í ljós að Alexandre Pato vildi ekki fara til franska liðsins Paris St-Germain sem hafði boðið í brasilíska sóknarmanninn. City vill ekki lána Tevez.

Carlos Tevez hefur verið í tveggja mánaða verkfalli hjá Manchester City og hefur ekkert spilað né æft með félaginu síðan í lok september. Hann hefur gefið það út að hann muni ekki koma aftur til City.

Roberto Mancini fær ekki leyfi til að kaupa nýja leikmenn fyrr en honum tekst að selja Tevez og því er komin upp algjör pattstaða hjá Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×