Enski boltinn

Man City og Inter Milan byrjuð að tala saman um Tevez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það stefnir í baráttu á milli Mílanó-félaganna um Carlos Tevez því nú hefur Inter Milan blandað sér inn í málið fyrir alvöru. AC Milan hefur undanfarnar vikur reynt að fá Argentínumanninn að láni en nú hafa Inter-menn hafið viðræður við Manchester City um kaup á Tevez.

Viðræður Manchester City og AC Milan hafa ekki gengið vel og það er nokkuð ljóst að það mun ekki ganga upp hjá AC Milan að fá Tevez á láni. City-menn ætla að selja leikmanninn og það kemur ekkert annað til greina.

"Við erum ekki að þessu í einhverju gríni. Við teljum að þetta sé góður kostur fyrir okkur. Við ætlum að fræðast um hver staðan sé og hvort að það skapast tækifæri fyrir okkur að fá hann. Það eru ennþá þrjár vikur eftir og þetta snýst ekki um bjartsýni heldur um að sjá hver staðan sé í raun og veru," sagði Massimo Moratti forseti Inter.

Carlos Tevez hefur ekki spilað með Manchester City síðan á móti Birmingham 21. september síðastliðinn eftir að hann neitaði að hita upp fyrir Meistaradeildarleik á móti Bayern München.

Inter er í 5. sæti ítölsku deildarinnar, tíu stigum á eftir toppliði AC Milan. Liðin mætast um næstu helgi og Tevez málið mun örugglega ýta undir ríginn á milli félaganna fyrir þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×