Fótbolti

Þjálfari Lazio: Klose er betri leikmaður en Zlatan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Miroslav Klose.
Miroslav Klose. Mynd/Nordic Photos/Getty
Edy Reja, þjálfari ítalska liðsins Lazio, væri ekki tilbúinn að skipta á Svíanum Zlatan Ibrahimovic og Þjóðverjanum Miroslav Klose. Zlatan hefur skorað þremur mörkum meira en Klose í vetur og Svíinn hefur orðið ítalskur meistari öll tímabil sín í deildinni.

„Klose er betri leikmaður en Zlatan. Ibra er tilþrifameiri leikmaður en Klose en Klose skilar meiru til liðsins. Hann er vinnusamari og er alltaf að fyrir liðið. Hann er klókur og sannur liðsmaður," segir Edy Reja.

AC Milan og Lazio mætast í ítölsku deildinni í kvöld. AC Milan er í 2. sæti á eftir toppliði Juventus en Lazio er sjö stigum á eftir AC Milan í fjórða sæti deildarinnar.

Zlatan Ibrahimovic er með 15 mörk og 7 stoðsendingar í 17 leikjum með AC Milan í ítölsku deildinni á þessu tímabili en Miroslav Klose er með 11 mörk og 3 stoðsendingar í 19 leikjum með Lazio.

Zlatan hefur skorað 6 mörk úr vítum en öll mörk Klose koma utan af velli. Það hafa liðið 99 mínútur milli marka hjá Zlatan en 140 mínútur milli marka hjá Klose.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×