Fótbolti

Klose og Di Natele skoruðu | Enn tapar Inter

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn Lazio fagna markaskoraranum Miroslav Klose.
Leikmenn Lazio fagna markaskoraranum Miroslav Klose. Nordic Photos / Getty Images
Lazio og Udinese unnu bæði leiki sína í ítalska boltanum í kvöld. Liðin eru með jafnmörg stig í 3. og 4. sæti deildarinnar í humátt á eftir AC Milan og Juventus sem verma toppsætin.

Inter tapaði enn einum leiknum þegar liðið lá 1-0 gegn Napólí á útivelli. Ezequiel lavezzi, sem skoraði tvívegis í sigri Napólí á Chelsea í Meistaradeildinni í vikunni, skoraði eina markið í síðari hálfleik. Heimamenn léku manni færri síðast korterið en það kom ekki að sök.

Það hefur heldur betur sigið á ógæfuhliðina hjá Claudio Ranieri og hans mönnum hjá Inter. Ítalski stjórinn sneri slæmu gengi liðsins á upphafsmánuðum tímabilsins við en nú virðist liðinu fyrirmunað að ná góðum úrslitum.

Miroslav Klose var enn einu sinni hetja Lazio sem sigraði Fiorentina í Róm 1-0. Klose skoraði markið seint í fyrri hálfleik en þýski landsliðsmaðurinn er kominn með tólf mörk í deildinni á leiktíðinni.

Markahæsti maður deildarinnar, Antonio Di Natele, skoraði fyrsta mark Udinese úr vítaspyrnu í 3-1 útisigri á Bologna. Di Natale hefur skorað 17 mörk í deildinni.

Argentínumaðurinn Denis skoraði þrennu þegar Atalanta sigraði Roma 4-1. Hinn 31 árs ára Denis er í láni hjá Atalanta frá Udinese og hefur reynst liðinu vel á leiktíðinni.

Lecce vann dýrmætan útisigur á Cagliari 2-1 en liðið á í harðri baráttu að halda sæti sínu í deildinni.

Athygli vakti að sex rauð spjöld fóru á loft í leikjunum átta sem fram fóru í dag og í kvöld.

Úrslit kvöldsins

Atalanta 4-1 AS Roma

Cagliari 1-2 Lecce

Catania 3-1 Novara

Chievo 1-0 Cesena

Siena 4-1 Palermo

Bologna 1-3 Udinese

Lazio 1-0 Fiorentina

Napólí 1-0 Inter



Staðan í ítölsku deildinni.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×