Fótbolti

Napoli skoraði sex mörk - langþráður sigur hjá Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Napoli-liðið hitaði upp fyrir seinni leikinn á móti Chelsea í Meistaradeildinni með því að vinna 6-3 sigur á Cagliari í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Inter Milan vann á sama tíma langþráðan sigur á útivelli á móti Chievo.

Napoli mætir Chelsea á Stamford Bridge í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn en ítalska liðið vann fyrri leikinn 3-1. Napoli-liðið er í 4. sæti átta stigum á eftir toppliði AC Milan sem á líka leik til góða.

Marek Hamsík, Paolo Cannavaro, Ezequiel Lavezzi, Walter Gargano og Christian Maggio skoruðu allir fyrir Napoli en sjötta markið var sjálfsmark. Cagliari minnkaði muninn í 3-1, 5-1 og 6-3 með þremur mörkum frá Argentínumanninum Joaquin Larrivey.

Argentínumennirnir Walter Samuel og Diego Milito tryggðu Inter Milan 2-0 útisigur á Chievo með mörkum á síðustu þremur mínútunum. Wesley Sneijder lagði upp það fyrra en Javier Zanetti það síðara.

Inter var ekki búið að vinna í síðustu sjö deildarleikjum eða frá 2-1 sigri á Lazio 22. janúar síðastliðinn. Inter komst upp í sjötta sætið með þessum sigri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×