Fótbolti

Laporta: Sér fyrir sér að Xavi taki við liði Barcelona af Guardiola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi.
Xavi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joan Laporta, fyrrum forseti Barcelona, er viss um að Pep Guardiola verði næsti forseti FC Barcelona og að Xavi Hernandez taki við af honum sem þjálfari spænska liðsins. Menn eru enn að velta fyrir sér framtíð Guardiola sem hefur ekki enn skrifað undir nýjan samning.

Xavi Hernandez er fyrir nokkru orðinn leikjahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi og enginn þjálfari hefur unnið fleiri titla en Pep Guardiola en undir hans stjórn hefur Barca unnið 13 af 16 titlum í boði.

„Pep Guardiola verður næsti forseti Barcelona," sagði Joan Laporta í viðtali við La Repubblica. „Xavi verður næsti þjálfari liðsins. Hann er fyrirbæri og líka frábær persónuleiki," sagði Laporta.

Laporta tók við sem forseti Barcelona árið 2003 og á mikinn þátt í uppkomu liðsins undanfarin ár. Hann fékk góð ráð frá Johan Cruyff en Barcaelona hefur komist í sérflokk með því að byggja liðið upp á uppöldum leikmönnum.

„Það eru fjögur atriði á bak við þetta. Katalónía er ein ástæðan og Johan Cruyff er einnig búinn að vera mikilvægur. Þriðja atriðið er La Masia og það fjórða er UNICEF. Það er svekkjandi að UNICEF sé ekki lengur aðalstuðningsaðili félagsins," sagði Joan Laporta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×