Fótbolti

AC Milan: Zlatan og Silva ekki til sölu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Massimiliano Allegri, stjóri AC Milan, segir að sóknarmaðurinn Zlatan Ibrahimovic og varnartröllið Thiago Silva verða ekki seldir nú í sumar.

Báðir hafa verið orðaðir við Manchester City á Englandi og spænsku stórveldin Barcelona og Real Madrid eru einnig sögð áhugasöm um Silva.

„Félagið og forseti þess vilja halda AC Milan í hæsta gæðaflokki. Ibrahimovic og Thiago verða áfram hér," sagði Allegri.

„Thiago er ungur og Ibrahimovic hefur enn mikið að gefa. Þeir eru báðir meistarar og Milan getur notað þá til byggja upp lið til framtíðar. Félagið vinnur nú aðeins að því að finna nýja leikmenn í stað þeirra sem eru farnir."

Ibrahimovic skoraði 28 mörk í 31 leik á síðasta tímabili og þó svo að hann sé umdeildur er hann sannarlega einn hættulegasti framherji heimsins. Hann er samningsbundinn Milan til 2015.

Silva er 27 ára Brasilíumaður og samningsbundinn félaginu til 2016. Hann þykir einn allra besti varnarmaður heims í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×