Fótbolti

Pescara fékk á sig þrjú mörk manni færri í fyrsta leik Birkis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason í leik með Pescara.
Birkir Bjarnason í leik með Pescara. Mynd/Nordic Photos/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason fékk sitt fyrsta tækifæri með Pescara í dag þegar hann var í byrjunarliði liðsins í 3-0 tapi á útivelli á móti Torino í ítölsku úrvalsdeildinni. Pescara missti mann af velli eftir aðeins 28 mínútur og fékk á sig þrjú mörk manni færri.

Birkir spilaði hægra megin á þriggja manna miðju í leiknum en miðvörðurinn Christian Terlizzi fékk dæmda á sig vítaspyrnu og rautt spjald á 28. mínútu leiksins. Torino klúðraði vítinu en Alessandro Sgrigna kom Torino síðan í 1-0 á 34. mínútu.

Matteo Brighi og Rolando Bianchi skoruðu síðan mörk með fjögurra mínútna millibili eftir um klukkutíma leik og þannig urðu lokatölurnar. Birkir lék allan leikinn.

Birkir sat allan tímann á bekknum í fyrstu umferðinni þegar Pescara-liðið tapaði 0-3 á heimavelli á móti Internazionale. Liðið er því stigalaust á botni deildarinnar en Pescara er nýliði í A-deildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×