Fótbolti

Andrea Pirlo: AC Milan leyfði mér ekki að fara til Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Pirlo, miðjumaður Juventus, verður í sviðsljósinu annað kvöld þegar Juve tekur á móti Chelsea í gríðarlega mikilvægum leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Pirlo sagði frá því í viðtali í Daily Mail að litlu hefði munað að hann hefði orðið leikmaður Chelsea fyrir nokkrum árum.

Carlo Ancelotti stýrði þá liði Chelsea en Andrea Pirlo lék undir hans stjórn hjá AC Milan. Pirlo er nú orðinn 33 ára gamall en liðið með hann innanborðs hefur orðið ítalskur meistari undanfarin tvö tímabil (AC Milan 2010-11 og Juventus 2011-12).

„AC Milan vildi ekki leyfa mér að fara. Ég var þegar byrjaður að tala við fólkið hjá Chelsea en fékk á endanum ekki leyfi til að yfirgefa AC Milan," sagði Andrea Pirlo við Daily Mail.

„Ég náði vel saman við Ancelotti og var í sambandi við hann þegar hann var hjá Chelsea. Ég er enn í sambandi við hann í dag," sagði Pirlo.

„Það hefði örugglega verið skemmtileg lífsreynsla fyrir mig ekki síst þegar ég var aðeins þrítugur. Því miður gekk það ekki upp," sagði Pirlo.

„Hver veit hvort að ég spili einhvern tímann á Englandi. Ég á eftir tvö ár af samningnum hjá Juve, þetta tímabil og næsta. Ég veit ekki hvað gerist eftir það en ég mjög hrifinn af enska boltanum enda mörg frábær lið sem spila fótbolta sem gaman er að horfa á," sagði Pirlo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×