Skoðun

Græna hagkerfið á góðri leið

Skúli Helgason skrifar
Alþingi samþykkti með öllum greiddum atkvæðum þann 20. mars síðastliðinn stefnu um eflingu græna hagkerfisins, sem nefnd allra þingflokka undir minni forystu mótaði á árunum 2010-2011. Stefnan felur í sér fimmtíu tillögur um aðgerðir sem hafa það að markmiði að skapa atvinnu og verðmæti með aðferðum sem samrýmast markmiðum sjálfbærrar þróunar.

Lagt er til að ríkið skapi aðstæður fyrir uppbyggingu græns hagkerfis með ýmiss konar hagrænum hvötum sem örvi fyrirtæki í mismunandi atvinnugreinum til að þróa eða taka upp umhverfisvænar lausnir og verkferla. Víða eru grænir sprotar í íslensku atvinnulífi og má þar nefna græna ferðaþjónustu, fyrirtæki á sviði líftækni og umhverfistækni, vistvæna hönnun, lífræna landbúnaðarframleiðslu og svo mætti lengi telja.

Verkefnastjórn á vegum forsætisráðuneytis vinnur nú að forgangsröðun tillagna og mati á kostnaði þeirra. Stefnt er að því að strax í byrjun næsta árs verði hafist handa við að innleiða fyrsta áfanga aðgerðaáætlunar um eflingu græna hagkerfisins. Þar verður m.a. lögð áhersla á að auka fjárfestingar og skapa atvinnu, innleiða græn vinnubrögð í stjórnsýslunni, auka fræðslu til almennings og fyrirtækja um sjálfbæra þróun og skapa frekari hvata til notkunar umhverfisvænna samgöngumáta.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að verja 3,5 milljörðum króna í græna hagkerfið á næstu þremur árum sem hluta af fjárfestingaáætlun og fer sú tillaga nú til meðferðar og afgreiðslu á Alþingi. Fyrir það fjármagn er m.a. ætlunin að setja á fót sjóð sem fjárfestir í grænni atvinnustarfsemi hér á landi, laða til landsins grænar erlendar fjárfestingar, stuðla að orkuskiptum í skipum, hvetja til ?grænkunar? fyrirtækja með endurgreiðslum og auka áherslu á vistvæn innkaup, en ríkið kaupir á hverju ári vörur og þjónustu fyrir 100 milljarða króna og getur sent sterk skilaboð út á markaðinn með því að leggja áherslu á innkaup sem uppfylla umhverfiskröfur.

Miklar deilur stóðu um árabil um þá stóriðjustefnu sem stjórnvöld ráku á árunum 1995 til 2007. Með eflingu græna hagkerfisins sendum við skýr skilaboð um breytta stefnu þar sem sköpun atvinnu og verðmæta er í góðu samræmi við umhverfisvernd og sjálfbærni.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×