Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Noregur 26-28

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Laugardalshöll skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta kom verulega á óvart þegar það tapaði með aðeins tveggja marka mun fyrir stöllum sínum frá Noregi 28-26 í hörku leik í Laugardalshöll í dag. Ísland var 15-13 yfir í hálfleik.

Ísland skoraði 12 mörk úr hröðum upphlaupum í leiknum. Önnur bylgja liðsins var frábær og þá sérstaklega í fyrri hállfeik. Heims- og Ólympíumeistarar Noregs áttu í miklum vandræðum þegar Ísland keyrði upp hraðann en norska liðið er þekkt fyrir sinn hraða leik.

Liðin skiptust á að leiða í fyrri hálfleik en Ísland náði tveggja marka forystu fyrir hálfleik með góðum lokasprett.

Norska liðið var sterkara í seinni hálfleik og sýndi styrk sinn í varnarleiknum þar sem liðinu gekk mun betur að ráða við hraða íslenska liðsins.

Noregur náði mest fimm marka forystu í seinni hálfleik 26-21 en Ísland náði að rétta hlut sinn á síðustu mínútunum og tveggja marka tap staðreynd.

Varnarleikur Íslands gekk á köflum vel en markvarslan var ekki mikil og má segja að munurinn á liðinum í dag hafi verið markvarslan en Silje Solberg varði mjög vel í marki Noregs.

Liðin mætast aftur á þriðjudagskvöldið á Selfossi.

Ágúst: Vorum agaðar„Varnarleikurinn var frábær og skilar okkur mörgum hraðaupphlaupsmörkum. Það er stór þáttur í þessu og að sama skapi var sóknarleikurinn mjög vel útfærður,“ sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari Íslands.

„Sóknarleikurinn var mjög agaður og vel skipulagður og vel stýrt af miðjumönnum liðsins. Við gáfum fá tækifæri á okkur í hraðaupphlaupunum og það er lykillinn á móti Noregi.

„Við vorum agaðar og vorum ekki að taka einhverjar þvælu ákvarðanir og rugl sendingar og það skilaði þessu í dag,“ sagði Ágúst um hve fáum boltum Ísland tapaði í leiknum.

„Við mætum með tvo unga markmenn hér í dag og vorum án okkar leikreyndustu markmanna en Dröfn og Sunneva leystu mjög vel úr þessu. Það voru einhverir boltar sem þær gátu tekið en þetta er góður skóli fyrir þær. Þetta eru framtíðar markmenn. Það er gott fyrir þær að fá þessa leiki

„Við fórum með nokkur góð tækifæri og hún ver hátt í 20 bolta hinu megin. Heilt yfir var þetta vel útfærður leikur og mikil barátta og leikgleði í hópnum. Ég var ánægður með það.

„Við getum verið sátt við þetta þó maður vilji auðvitað alltaf vinna. Þetta var vel útfært og við ætlum að mæta af sama krafti á Selfoss á þriðjudaginn. Það er gaman að spila á Selfossi, Selfyssingar er góðir stuðningsmenn og vanir að fjölmenna á leikina. Við hlökkum til og ætlum að sýna stöðugleika,“ sagði Ágúst.

Hrafnhildur: Þetta var lífs nauðsynlegt„Þetta var mjög jákvætt. Við þurftum virkilega á þessu að halda eftir mjög dapra frammistöðu gegn Tékkum,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir eftir þennan góða leik í dag.

„Það er skemmtilegt að sjá hvað við skorum mörg mörk úr annarri bylgju. Það vantaði á móti Tékkum. Það var allt annar bragur á þessu og þá verður allt mikið auðveldara eins og sést á því að við skorum 26 mörk í dag.

„Það er pínu stressandi að fara að spila við þetta lið sem við erum vön að tapa með fimmtán til tuttugu mörkum fyrir, það er aldrei gaman. Við vorum ákveðnar í því að láta þetta norska lið ekki flengja okkur enn einu sinni.

„Það var nauðsynlegt fyrir liðið á þessum tímapunkti að ná góðum leik og ná annarri bylgju. Það var lífs nauðsynlegt,“ sagði Hrafnhildur

Þórir: Höfum ekkert kíkt á sóknarleikinn„Þetta var eins og búast mátti við. Ég hefði viljað sjá okkur aðeins grimmari í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var fínn,“ sagði Þórir Hergeirsson eftir leikinn.

„Við erum að spila með eina og eina sem eru með mikla reynslu en þær eru þungar og er kannski ekki topp mótiveraðar í svona leiki á þessum tíma en þessar ungu þurfa að spila og þær spila mikið.

„Við erum með reynslu lítið lið ef við tökum frá tvo til þrjá lykilmenn. Stelpur sem eru með undir 20 landsleiki og þær eru að spila mikið hér sem er nauðsynlegt.

„Ég er ánægur með seinni hálfleikinn, sérstaklega varnarlega. Við náðum að stilla okkur rétt og vorum að spila betur. Við höfum verið að vinna með þessa 5-1 vörn en höfum ekkert kíkt á sóknarleikinn, ekki í eina mínútu.

„Það hefur verið áhersla á vörn, þrek og hópefli og annað. Sóknarleikurinn ber þess merki og var heldur ráðleysislegur inn á milli. Við kíkjum á það á morgun og lagfærum fyrir seinni leikinn,“ sagði Þórir sem var heilt yfir ánægður með leikinn.

„Ísland lék vel, agað og slógust og þær eru stoltar hér á heimavelli og eru mjög góður andstæðingur fyrir okkur á þessum tímapunkti,“ sagði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×